154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

skyldutryggingar lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

880. mál
[11:23]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir hans svar hér og óska honum til hamingju með nýtt embætti. Tilgangur lífeyrissjóðanna er fyrst og fremst að greiða lífeyri. Þeim ber skylda til að ávaxta fjármuni á þann veg að fólk fái notið lífeyris á efri árum og mér er sérstaklega umhugað um að lífeyrissjóðir geti sinnt hlutverki sínu. Ég fagna því öllum þeim breytingum sem losa um fjárfestingahöft lífeyrissjóða sem eru mjög mikil á Íslandi og hafa verið í gegnum tíðina. Lífeyrissjóðirnir hafa t.d. búið við það að geta ekki farið eins mikið í erlendar fjárfestingar og þeir hefðu viljað af því að þeir hafa verið nýttir sem einhvers konar þjóðhagsvarúðartæki oft og tíðum til að standa með íslenskum gjaldmiðli. Að sjálfsögðu fagna ég því að verið sé að auka frelsi lífeyrissjóðanna en vil samt sem áður að það sé tryggt að samráð sé mikið við lífeyrissjóðina við allar þær breytingar sem gerðar eru. Ég mun að sjálfsögðu styðja það að heimildir lífeyrissjóða — það er kannski bara spurning hvort við eigum ekki að afnema öll þau höft sem hvíla á lífeyrissjóðunum til fjárfestinga.